Lúkas lifir í draumi... Hlustið!!!

Tónlistin í "HÉR & NÚ" er að taka á sig mynd og hefur tónlistarstjórinn og tónsmiður okkar, Hallur Ingólfsson, borið fram hvert snilldarlagið á fætur öðru. Textarnir eru ýmist samdir af honum, Hjálmari Hjálmarssyni eða leikhópnum í sameiningu. Til að auðvelda leikurunum að læra lögin gerir Hallur demó, eða prufuupptöku, fyrir hvert lag þar sem hann sjálfur syngur allar raddir og spilar. Í næstu viku verða tekin upp nokkur lög með leikurunum, en þangað til eru hér þrjú af prufulögunum hans Halls - svona til að gefa ykkur smá innsýn í það sem koma skal.

Í tónlistarspilaranum hér til vinstri eru þrjú demó; "Lúkas lifir", "Draumar munu rætast" og "Ég á það, ég má það". Hlustið og njótið!


Æfingar fyrir HÉR & NÚ á fullu!

Þá fer að líða að því... æfingar eru komnar vel í gang og frumsýning nálgast óðum! Við erum að byrja að koma bloggsíðunni í gang og fyrsta verk verður að setja inn fréttatilkynningu um hver við erum og hvað við ætlum að gera. Við leyfum ykkur svo að fylgjast með framvindunni:

Æfingar eru hafnar á söng- og gleðileiknum "HÉR & NÚ" sem Sokkabandið frumsýnir á Litla sviði Borgarleikhússins 10. nóvember n.k. Um er að ræða nútíma “revíu” þar sem blandað er saman uppistandi, stuttum leikþáttum, eintölum, leikjum, dansnúmerum og stórskemmtilegum og frumsömdum sönglögum með skoplegum og beittum textum. Efniviðurinn er tekinn úr heimi glanstímarita, spjallþátta, bloggsíðna og annarra fjölmiðla sem hafa það að leiðarljósi að skemmta okkur íslendingum með dramatískum lífsreynslusögum og fréttum af fræga fólkinu. Skoðaður er heimur þar sem miðlarnir eru orðnir eins og skriftarstólar fyrir fólk úr öllum stéttum samfélagsins og allar fréttir sagðar með sömu upphrópunarmerkjunum og í sama tón, hvort sem um er að ræða krabbamein, ástarsambönd eða súkkulaðigosbrunnar. Leikhópurinn tekur áhorfendur með í ferðalag þar sem allar þessar hliðar verða skoðaðar í þaula – glamúr, glæsileiki, skemmtilegir leikir, glæsilegir vinningar og nýr leynigestur treður upp á hverri sýningu. Gestir eru hvattir til að taka myndavél með sér því allt getur gerst! Eitthvað fyrir alla og allt á sama tíma. Stefnt er að því að HÉR & NÚ! verði einstakur leiðarvísir Íslendinga sem leita fegurðar, gleði, ríkidæmis, ástar og frægðar. Komið í leikhúsið og látið drauma ykkar rætast!

HÉR & NÚ! er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og leikhópsins Sokkabandsins. Sokkabandið er afsprengi Skjallbandalagsins sem setti upp “Beyglur með öllu” í Iðnó fyrir örfáum árum. Stofnendur eru þær Arndís Hrönn Egilsdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkonur, og hafa þær frá upphafi haft það að markmiði að stuðla að nýsköpun í íslensku leikhúsi, vinna að nýjum íslenskum verkum og þróa nýjar vinnuaðferðir. Með verkum sínum hafa þær reynt að spegla íslenskan samtíma og kryfja tíðarandann hverju sinni. Sokkabandið hefur áður sett upp þrjú verk: Faðir Vor í Iðnó 2004, Mindcamp í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2006 og Ritskoðarinn í Sjóminjasafninu 2006.

Leikarar í sýningunni eru Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, María Heba Þorkelsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson. Handritið er unnið af leikhópnum sjálfum og hófst hugmyndaferlið í mars s.l. með spunavinnu og höfundasmiðjum. Leikmyndahönnuður sýningarinnar er Kristján Björn Þórðarson og um búninga sér Rannveig Kristjánsdóttir. Tónlistarstjóri og tónsmiður er Hallur Ingólfsson en leikstjóri sýningarinnar er Jón Páll Eyjólfsson.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband