Söngleikurinn HÉR & NÚ til Finnlands

FRÉTTATILKYNNING:

  

Sokkabandinu hefur verið boðið að fara með sýninguna sína Hér & Nú á leiklistarhátíðina í Tampere í Finnlandi, sem haldin verður dagana 4. – 10. ágúst n.k. Leiklistarhátíðin í Tampere er elsta, stærsta og virtasta leiklistarhátíðin á Norðurlöndum og býður uppá það helsta sem er að gerast í framsæknu finnsku og erlendu leikhúslífi á ári hverju. Hátíðin í ár verður sérstaklega glæsileg, en þetta er í fertugasta sinn sem hún er haldin. Einnig verður lögð sérstök áhersla á norræna leiklist þar sem Norrænir leiklistardagar fara fram í Tampere á sama tíma.

 

Hér & Nú er frumsaminn söngleikur, eins konar nútíma “revía” sem frumsýnd var á Litla sviði Borgarleikhússins 11. nóvember 2007. Sýningum lauk í lok janúar 2008 en leikhópnum var síðan boðið að sýna Hér & Nú á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni LÓKAL sem haldin var hér í Reykjavík í mars s.l. Fjölmargir erlendir leikhópar sóttu hátíðina heim sem og erlendir blaðamenn, gagnrýnendur og annað fagfólk. Þýski menningarblaðamaðurinn Jan Oberlander sá Hér & Nú á hátíðinni og var yfir sig hrifinn af sýningunni. Á nachtkritik.de, sem er vinsæl og virt leiklistargagnrýnisíða í Þýskalandi, líkir hann Sokkabandinu við leikhópa á borð við She She Pop og Gob Squad en þeir hópar þykja hvað framsæknastir í þýsku leikhúsi í dag. Einnig komu forsvarsmenn leiklistarhátíðarinnar í Tampere og vakti sýningin það mikla lukku að leikhópurinn fékk strax í kjölfarið boð um að sýna á hátíðinni. Samningar hafa nú náðst við forsvarsmenn beggja aðila og er nú staðfest að leikhópurinn er á leið til Finnlands í byrjun ágúst.  

 

Hér & Nú samanstendur af uppistandi, stuttum leikþáttum, eintölum, leikjum, dansnúmerum og frumsömdum sönglögum. Efniviðurinn var tekinn úr heimi glanstímarita eins og Séð & Heyrt, Hér & Nú og Vikunni sem og spjallþátta, bloggsíðna og annarra fjölmiðla sem hafa það að leiðarljósi að skemmta okkur íslendingum með dramatískum lífsreynslusögum og fréttum af fræga fólkinu. Í sýningunni skoðar leikhópurinn heim þar sem miðlarnir eru orðnir eins og skriftarstólar fyrir fólk úr öllum stéttum samfélagsins og allar fréttir sagðar með sömu upphrópunarmerkjunum og í sama tón, hvort sem um er að ræða krabbamein, ástarsambönd eða súkkulaðigosbrunna.

 
Sokkabandið er afsprengi Skjallbandalagsins sem setti upp “Beyglur með öllu” í Iðnó fyrir nokkrum árum síðan. Stofnendur eru þær Arndís Hrönn Egilsdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkonur, og hafa þær frá upphafi haft það að markmiði að stuðla að nýsköpun í íslensku leikhúsi, vinna að nýjum íslenskum verkum og þróa nýjar vinnuaðferðir. Með verkum sínum hafa þær reynt að spegla íslenskan samtíma og kryfja tíðarandann hverju sinni. Sokkabandið hefur áður sett upp þrjú verk: Faðir Vor í Iðnó 2004, Mindcamp í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2006 og Ritskoðarinn í Sjóminjasafninu 2006.

 

Hér & Nú var samstarfsverkefni leikhópsins Sokkabandsins og Borgarleikhússins og var framleitt með styrk frá Menntamálaráðuneytinu. Verkið var unnið af leikhópnum í sameiningu, en leikarar í sýningunni eru Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, María Heba Þorkelsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson. Frumsamin tónlist er eftir Hall Ingólfsson sem einnig leikur og spilar í sýningunni, leikmyndahönnuður er Kristján Björn Þórðarson og framkvæmdastjóri verkefnisins er Hera Ólafsdóttir. Leikstjóri sýningarinnar er Jón Páll Eyjólfsson.

 

Endanleg dagskrá leiklistarhátíðarinnar í Tampere verður tilkynnt í byrjun maí 2008 og verður hægt að kynna sér hana á heimasíðu hátíðarinnar, www.teatterikesa.fi .


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband